Mannauður
Frábært starfsfólk
Mannauður
Frábært starfsfólk

Frábært starfsfólk er grunnur að góðum árangri. Við viljum eftirsóknarverðan vinnustað þar sem samskipti einkennast af lipurð, þekkingu og ábyrgð. Áhersla er lögð á að starfsfólk geti vaxið í starfi og aflað sér þekkingar sem stuðlar að starfsánægju og framúrskarandi þjónustu.

Starfsánægja
Mannauður
Ánægt starfsfólk

Áhersla er lögð á að vinnustaðurinn sé eftirsóknarverður, þar ríki góður starfsandi og allt starfsfólk leggi sig fram um að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu. Á árinu voru gerðar tvær vinnustaðagreiningar, unnar af Gallup, til að mæla starfsánægju. Á heildina litið er starfsfólk ánægt með vinnustaðinn og gefur einkunnina 4,33 á kvarðanum 1 til 5, þar sem 5 merkir að vera ákaflega ánægð(ur) með fyrirtækið sem vinnustað og 1 þýðir ákaflega óánægð(ur).

Stofnun ársins
Annað sætið
2023
Mannaudur_anaegt starfsfolk

Stofnun ársins er samræmd könnun stofnana í eigu ríkisins. Könnunin mælir starfsánægju auk fjölmargra annarra þátta sem snúa að stjórnun og starfsumhverfi. Könnunin var að þessu sinni framkvæmd á tímabilinu október til desember 2023. Könnunin er unnin af Gallup og er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og fjölmargra stofnana. Í tilviki ÁTVR er öllu fastráðnu starfsfólki boðið að taka þátt, óháð stéttarfélagi. ÁTVR var í öðru sæti í flokki stórra stofnana, með 90 starfsmenn eða fleiri, með heildareinkunnina 4,35. Þetta er frábær árangur og endurspeglar þær áherslur sem unnið hefur verið með á sviði mannauðsmála á undanförnum árum.

Siðareglur gegna mikilvægu hlutverki við að skerpa á ábyrgð starfsfólks og undirstrika mikilvægi þess að allir hagsmunaaðilar njóti sanngirni og jafnræðis. Við upphaf starfs er starfsfólki kynntar siðareglur auk þess sem þær eru aðgengilegar starfsfólki og hagsmunaaðilum á www.vinbudin.is. Samskiptavefurinn Workplace er öflugur vettvangur til að auka upplýsingar á milli starfsstöðva auk þess að gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að félagslegum þáttum. Þar getur starfsfólk leitað upplýsinga og miðlað af reynslu sinni, bæði af því sem vel er gert sem og með ábendingum um það sem betur má fara.

Góð heilsa
Mannauður
Góð heilsa

ÁTVR er umhugað um heilsu og vellíðan starfsfólks. Með markvissum aðgerðum er starfsfólk hvatt til að huga að bæði andlegri og líkamlegri heilsu með því að bjóða styrki og fjölbreytta fræðslu. Einn liður er að hvetja starfsfólk til að taka þátt í vinnustaðakeppnunum Lífshlaupinu og Hjólað í vinnuna. Starfsfólki er boðið að gera samgöngusamninga eftir árstíðum, sumar og vetur. Markmið samninganna er í meginatriðum tvíþætt: að auka hreyfingu og minnka umhverfisáhrif. Starfsfólk sem gerir samgöngusamning skuldbindur sig til að ferðast til og frá vinnu með vistvænum hætti meirihluta vikunnar. Á undanförnum árum hefur notkun á vistvænum bílum aukist og er hleðslustöðvum á Stuðlahálsi ætlað að styðja við orkuskipti í samgöngum.

87%
telja samgöngusamning hafa jákvæð áhrif á heilsu

Árlega er gerð könnun á meðal starfsfólks þar sem spurt er út í ýmsa þætti tengda samgöngusamningnum og ferðamáta. Almennt er mikil ánægja með samninginn. Af þeim sem tóku afstöðu voru 72% ánægðir með samninginn og 87% telja samninginn hafa jákvæð áhrif á heilsu. Hlutfall þeirra sem koma til vinnu á bílum sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti lækkar stöðugt og er nú 34%, hlutfall þeirra sem koma fótgangandi er 24% og er svipað á milli ára, 11% velja að koma til vinnu á reiðhjóli.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um Sjálfbæra þróun, sjálfbærar borgir og samfélög númer 11, Heilsu og vellíðan númer 3, og Aðgerðir í loftslagsmálum númer 13, fléttast inn í samgöngumálin. Það leiðir af sér minna svifryk, minni útblástur, minni gatnaskemmdir, styttri umferðartíma og betri andlega og líkamlega heilsu.

Starfsfólki er boðið upp á heilsufarsskoðun þar sem mældur er blóðþrýstingur, kólesteról og blóðsykur, auk þess er boðið upp á viðtal þar sem rætt er um álag og streitu.

Til að stuðla að sjálfbærni og geta boðið upp á hollan og næringarríkan mat var haldið áfram með matjurtagarð á lóðinni á Stuðlahálsi. Í garðinum voru ræktaðar ýmsar tegundir: rabarbari, rifsber, kryddjurtir, kartöflur, grænkál og jarðarber. Þótt garðurinn sé ekki stór er mikil ánægja með uppskeruna og er markmiðið að halda áfram með ræktunina.

Greining og tölur
Mannauður
Greining og tölur

Í árslok voru 489 starfsmenn á launaskrá. Konur eru fleiri í starfsmannahópnum, eða 274 á móti 213 körlum, tvö eru með hlutlaust kyn. Ráðningarformin eru tvö. Fastráðning sem getur bæði verið í fullt starf eða hlutastarf og tímavinna. Tímavinnustarfsfólk vinnur almennt á álagstímum seinni hluta vikunnar, í sumarafleysingum og um jól.

Á árinu fengu 641 starfsmenn greidd laun. Ársverk voru 333 og fjölgaði um 4 á milli ára. Meðalaldur starfsfólks er rúmlega 38 ár og starfsaldur að meðaltali um 6 ár. Ef litið er til ráðningarforms þá er meðalaldur fastráðinna starfsmanna tæplega 44 ár og meðal starfsaldur rúmlega 10 ár. Starfsfólk sem vinnur í tímavinnu er með rúmlega 34 ára meðalaldur og starfsaldurinn er í kringum 3 ár.

Starfsmannavelta fyrirtækisins í heild var 29%. Meiri starfsmannavelta er hjá tímavinnufólki en í hópi fastráðinna.

641
fengu greidd laun árið 2023
333
ársverk voru unnin árið 2023
Hlutfall starfsmannaveltu eftir aldri
Dreifingar- miðstöð
Skrifstofa
Starfsfólk Vínbúða
Stjórnendur Vínbúða
Hlutfall starfsmannaveltu eftir kyni
Dreifingarmiðstöð
Skrifstofa
Starfsfólk vínbúða
Stjórnendur vínbúða

Alls tóku 16 starfsmenn fæðingarorlof árið 2023; tíu karlar og sex konur. Sex karlmenn hafa snúið aftur til starfa að loknu fæðingarorlofi, þrír eru enn í orlofi og einn hefur látið af störfum. Tvær konur eru enn í fæðingarorlofi og fjórar eru komnar aftur til starfa.

Nýráðningar voru 77 á árinu og skiptust 40% karlar, 58% konur og 1% kynsegin. Flestar nýráðningar eru á konum 30-50 ára í tímavinnu. Hluti þeirra hættir á tímabilinu.

Nýráðningar eftir aldri
  • Karlar
  • Konur
  • Kynsegin
Slys og fjarvistir
Mannauður
Slys og fjarvistir vegna veikinda

Markmiðið er að halda vinnustaðnum öruggum og slysalausum. Það náðist ekki alveg í ár, eitt vinnuslys varð á vinnustað en ekkert til og frá vinnu.

Í viðverukerfi er haldið utan um fjarveru starfsfólks vegna veikinda og veikinda barna. Fjarveru vegna veikinda er skipt í langtíma- og skammtímafjarveru. Langtímafjarvera er fjarvera lengri en tvær vikur samfellt. Skammtímafjarvera vegna veikinda og veikinda barna var alls 3,4% á árinu og lækkaði úr 3,9% frá fyrra ári.

Starfsþróun
Mannauður
Fræðsla og starfsþróun

Mikil áhersla er lögð á starfþróun til að efla þekkingu, sem stuðlar að starfsánægju og framúrskarandi þjónustu. Vöruþekking er þungamiðja fræðslunnar. Samtals voru fræðslustundir 9.101, umreiknað í 27 stundir á stöðugildi og jókst um 7 stundir á stöðugildi á milli ára. Eloomi fræðslukerfið gerir það að verkum að starfsfólk getur nálgast fræðslu með rafrænum hætti á hvaða tíma sem er. Langflestir almennir fyrirlestrar eru teknir upp og gerðir aðgengilegir á Eloomi sem skýrir að hluta fjölgun námskeiðsstunda á milli ára.

Mannaudur_fraedsla og starfsthroun
Fræðsla
Fræðsluflokkar Starfsfólk Konur Karlar Tímar alls Meðalfjöldi á stöðugildi
Vöruþekking 2.444 62% 38% 6.658 20,0
Önnur fræðsla, góð heilsa og lífsleikni 1189 71% 29% 1.189 3,57
Önnur fræðsla þ.m.t. íslensku og lyftaranámskeið 379 65% 35% 1.254 3,77
Samtals námskeiðsstundir 4.012 65% 35% 9.101 27

Í þjónustukönnunum eru viðskiptavinir spurðir um afstöðu til þekkingar starfsfólks. Ánægjulegt er að sjá að 82% telja starfsfólk Vínbúðanna búa yfir mjög eða frekar mikilli þekkingu. Eingöngu 2% telja þekkinguna mjög eða frekar litla.

Öllu starfsfólki er að lágmarki boðið upp á tvö starfsmannasamtöl á ári. Samtölin eru hluti af endurgjöf og starfsþróun um leið og þau gefa starfsmanni og stjórnanda færi á að ræða líðan, verkefni og samskipti. Tilgangurinn er jafnframt að leita leiða til úrbóta þar sem þörf er á.

Kjarasamningar
Mannauður
Kjarasamningar

Öll starfsemi ÁTVR er á Íslandi og því er ekki talin hætta á að brotið sé á réttindum starfsfólks varðandi samningsrétt eða þátttöku í stéttarfélögum.

ÁTVR virðir mannréttindi og fylgir lögum og reglum sem gilda um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkisins, gerir kjarasamning við viðkomandi stéttarfélög. Starfsfólk fær greidd laun í samræmi við kjarasamninga, fyrir utan forstjóra en laun hans eru ákvörðuð af fjármála- og efnahagsráðherra. Gerðir hafa verið stofnanasamningar um nánari útfærslur kjarasamnings við annars vegar Sameyki og hins vegar einstök félög háskólamenntaðra starfsmanna. Allt starfsfólk er í stéttarfélagi.

Starfsfólk undir 20 ára aldri er ekki ráðið til starfa. Ástæðan er sú að viðskiptavinir þurfa að hafa náð 20 ára aldri til að mega versla í Vínbúðum.

Starfsfólk er ýmist ráðið tímabundið eða fastráðið. Uppsagnafrestur starfsfólks er samkvæmt kjarasamningum og er ólíkur eftir ráðningarformi; einn mánuður hjá tímavinnustarfsfólki en almennt þrír mánuðir fyrir fastráðna.

Starfsfólk sem ráðið var til starfa fyrir gildistöku starfsmannalaganna sem sett voru í júní 1996, getur átt rétt til biðlauna ef starf þeirra verður lagt niður.

Jafnlaunavottun
Mannauður
Jafnlaunavottun

ÁTVR hefur sett sér jafnlaunastefnu og birt jafnréttisáætlun. Markmið jafnlaunastefnu er að allt starfsfólk hljóti jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf, óháð kyni, þjóðerni eða öðrum órökstuddum þáttum. Jafnréttisáætlun er ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna, jafnri stöðu þeirra og virðingu. ÁTVR leggur áherslu á að allir fái notið sín án tillits til kynferðis, kynþáttar, trúarbragða, aldurs eða búsetu. Jafnréttisáætlun ÁTVR byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynja.

Eftir innleiðingu á jafnlauna staðlinum ÍST85:2012 haustið 2018, hlaut ÁTVR jafnlaunavottun til þriggja ára frá BSI á Íslandi og í framhaldi heimild til að nota jafnlaunamerki Jafnréttisstofu. Jafnlaunavottunin var endurnýjuð haustið 2021. Með vottun felst jafnframt skuldbinding til að vinna að stöðugum umbótum, hafa eftirlit með viðmiðum og bregðast við frávikum sem upp kunna að koma.