Inngangur
Formáli forstjóra
Inngangur
Formáli forstjóra

Frá forstjóra

Blikur eru á lofti í rekstri ÁTVR. Á árinu 2023 mátti sjá áþreifanlegar breytingar í rekstrarumhverfinu sem lýsa sér meðal annars í því að hagnaður af reglulegri starfsemi er að dragast saman. Vegur þar þyngst ólögleg netsala áfengis og mikill samdráttur í tóbakssölu. Áfengi var selt fyrir 38,2 milljarða króna og minnkaði salan um 2% frá fyrra ári. Sala tóbaks var 9,9 milljarðar króna og minnkaði sígarettusalan um tæp 9%. Sala neftóbaks heldur áfram að dragast saman og einungis seldust um 10 tonn á síðasta ári. Nýjar vörur á markaðnum, nikótínpúðar, sem ekki bera tóbaksgjald og eru þar af leiðandi mun ódýrari en íslenska neftóbakið, hafa tekið yfir markaðinn. Ef svo fer sem horfir með íslenska neftóbakið er aðeins tímaspursmál hvenær framleiðslu þess verður hætt.

Í ríkisreikningi má sjá að hlutfall ÁTVR af greiddum áfengisgjöldum hefur lækkað úr 73,7% árið 2019 í 68,2% fyrir árið 2023. Því hefur hlutdeild ÁTVR af greiddum áfengisgjöldum minnkað um 5 - 6%. Rökrétt er að álykta að þetta sé að mestu vegna ólöglegrar netsölu áfengis. Afleiðingar þessa eru að arðgreiðsla ÁTVR í ríkissjóð lækkar um 400 milljónir króna. Ef ekkert verður að gert varðandi netsöluna er líklegt að ÁTVR verði að skerða þjónustu verulega á næstu árum svo ekki komi til hallareksturs.

Nú þegar arðgreiðslur ÁTVR fara lækkandi, m.a. vegna ólöglegar netssölu áfengis, er rétt að rifja upp tilgang reksturs áfengiseinkasölu ríkisins. Rekstur ÁTVR byggir á augljósum lýðheilsu- og samfélagsástæðum sem felast meðal annars í því að takmarka aðgengi að áfengi og vinna gegn misnotkun áfengis og skaðlegum áhrifum þess. Hér á landi hefur ÁTVR einkaleyfi til smásölu áfengis. Fyrirkomulagið endurspeglast í 2. gr. laga nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak en þar segir að markmið laganna sé:

  • að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð,
  • að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu,
  • að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.

Í sömu lögum kemur fram að ÁTVR hefur einkaleyfi til að selja og afhenda áfengi í smásölu sbr. 10. gr. áfengislaga. Í áfengislögum nr. 75/1998 kemur fram að lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld annist eftirlit með þeim sem hafa leyfi til atvinnustarfsemi samkvæmt ofangreindum lögum.

Þegar ÁTVR sá fram á vaxandi umsvif ólöglegrar netsölu áfengis var ákveðið að fara með þau mál til lögreglunnar vegna eftirlitsskyldu hennar. Þann 16. júní árið 2020 kærði ÁTVR netsöluna til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir ítrekanir hafa engin svör borist frá lögreglunni. Nú eru að verða fjögur ár liðin frá því kæran var lögð fram. Það er eftirtektarverð stjórnsýsla að upplýsa kæranda ekkert um stöðu mála eftir fjögurra ára rannsókn. Ekki er hægt að trúa öðru en að lögreglan komist að niðurstöðu í kærumálinu á næstu vikum. Annað er óásættanlegt.

Á meðan ólögleg netsala áfengis hefur ekki verið stöðvuð hafa fjölmargar netverslanir sprottið upp. Með einföldum hætti má finna á þriðja tug netverslana sem selja og afhenda áfengi ólöglega beint af innlendum lager til neytenda. Hefur ÁTVR fengið upplýsingar um að m.a. ungmenni undir lögaldri, nýkomin með bílpróf, keyri áfengið út til jafnaldra sinna sem segja að það hafi aldrei verið auðveldara en nú að nálgast áfengi. Þá eru áfengisverslanir eða "afhendingarstaðir" áfengis farnir að spretta upp víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu.

Um mitt síðasta ár bættust við mikilvægar upplýsingar frá Svíþjóð um hvað má og hvað má ekki, hvað varðar netsölu áfengis, þar sem ríkiseinkasala sér um smásöluna. Í Svíþjóð er sambærilegt fyrirkomulag á smásölu áfengis og á Íslandi. Áfengiseinkasalan í Svíþjóð heitir Systembolaget og rekstur hennar byggir á lýðheilsusjónarmiðum eins og á Íslandi. Lagaumgjörðin um sænsku ríkiseinkasöluna er sambærileg við þá sem gildir um ÁTVR.

Þann 7. júlí árið 2023 féll dómur í Hæstarétti Svíþjóðar í máli sem Systembolaget höfðaði gegn einkarekinni áfengisnetsölu. Málið er gjarnan nefnt Winefinder málið og var deilt um hvort fyrirkomulag einkafyrirtækisins Winefinder á sölu áfengis á sænskum markaði væri brot á ríkiseinkarétti Systembolaget.

Niðurstaða Hæstaréttar var skýr og ótvíræð. Einkainnflutningur sænskra neytenda á áfengi er heimill eins og á Íslandi en áfengið verður að koma af lager sem staðsettur er utan Svíþjóðar. Áfengi afgreitt af lager í Svíþjóð er brot á ríkiseinkarétti Systembolagets og þar með ólöglegt.

Það er óumdeilt að stór hluti netverslana, sem selja áfengi á íslenskum markaði, selja það af innlendum lager. Áfengið hefur með öðrum orðum þegar verið flutt inn til landsins og tollafgreitt þegar það er selt og afhent beint til einstakra neytenda. Vísast í því sambandi til auglýsinga frá fjölda innlendra áfengisnetverslana sem lofa heimsendingu á innan við 30 mínútum. Því er augljóst að um ólöglega smásölu til neytenda er að ræða en ekki löglegan einkainnflutning. Kjarni málsins kemur fram í minnisblaði lögmanns sem tekið var saman, að beiðni ÁTVR, um sænska hæstaréttardóminn.

Rekstur ÁTVR byggir á augljósum lýðheilsu- og samfélagsástæðum sem felast meðal annars í því að takmarka aðgengi að áfengi og vinna gegn misnotkun áfengis og skaðlegum áhrifum þess.

Netverslanir sem selja áfengi á íslenskum markaði selja vörur sem hafa þegar verið fluttar inn til landsins og tollafgreiddar. Slík sala er smásala hér á landi sem brýtur gegn einkarétti ÁTVR til smásölu áfengis og því ólögleg.

Með því að láta ólöglega áfengissölu viðgangast er grafið undan áfengisstefnu sem fylgt hefur verið hér á landi í áratugi. Áfengisstefnu sem stuðlað hefur að auknu heilbrigði íslenskra ungmenna, minni áfengisneyslu og betri lýðheilsu. Áfengisstefnu sem byggir á lögum og meirihluti þjóðarinnar styður.

Með athafnaleysi er vegið að lýðheilsu og öllu því góða forvarnarstarfi sem unnið hefur verið í áfengisforvörnum barna og ungmenna undanfarin ár og áratugi.

Á síðustu áratugum hefur átt sér stað mikil umræða á Alþingi um framtíð ÁTVR og fyrirkomulag áfengissölu. Lögð hafa verið fram á þriðja tug frumvarpa og þingsályktunartillagna til breytinga á núverandi kerfi. Á síðasta ári lýsti þriðji dómsmálaráðherrann í röð vilja til þess að leggja fram frumvarp í þá átt að lögfesta heimild til reksturs innlendra netverslana með áfengi í smásölu. Ekkert bendir til þess að málið nái fram að ganga nú frekar en í fyrri skipti. Það er því aðkallandi að fá niðurstöðu í kæru ÁTVR sem legið hefur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í tæp fjögur ár.

Mikilvægt er að átta sig á því að í raun er enginn munur á smásölu og netsölu. Netsala er einungis eitt form smásölu. Augljóst er að verði frumvarp dómsmálaráðherra að veruleika verður smásala áfengis ekki lengur byggð á lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð sem er grundvöllur einkaleyfis ÁTVR í dag. Með því að heimila einkaaðilum slíka verslunarstarfsemi liggur í hlutarins eðli að í raun er einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis fellt niður. Slíkt fæli í sér að Ísland kúventi áfengisstefnu sinni. Lýðheilsusjónarmið væru yfirgefin og í stað þess farið inn í veruleika markaðsvæðingar þar sem markaðsöflin réðu ríkjum hvað varðar áfengissöluna.

ÁTVR á í góðu samstarfi við aðrar norrænar áfengiseinkasölur. Samvinnan er mikilvæg því rekstur þeirra allra byggir á lýðheilsusjónarmiðum. Stefnan er að vera leiðandi á sviði sjálfbærrar þróunar við framleiðslu áfengis og minnka umhverfisáhrif, bæði í aðfangakeðjunni og starfsemi fyrirtækjanna. Sameiginlega eru norrænu áfengiseinkasölurnar einn af stærstu kaupendum áfengra drykkja í heiminum. Mikilvægt er að tryggja eins og kostur er að vörur sem einkasölurnar selja séu framleiddar þannig að mannréttindi séu tryggð og framleiðslan hafi sem minnst umhverfisáhrif.

Breytingar á tóbaksvarnarlögum voru samþykktar á Alþingi á síðasta ári. ÁTVR er treyst fyrir veigamiklu hlutverki við að halda utan um og innleiða regluverk Evrópusambandsins í tóbaksmálum. Reglurnar eru mikill lagabálkur og margar skyldur sem ÁTVR þarf að uppfylla. Málið verður unnið í góðu og nánu samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og aðra fagaðila. Verkefnin sem ÁTVR mun sinna eru m.a. eftirfarandi:

  • Hafa yfirlit yfir losun, mæliaðferðir og skýrslugjöf.
  • Fylgjast með innihaldsefnum tóbaksvara og bragðefnum.
  • Halda utan um merkingar, umbúðir, rekjanleika, skráningu og öryggisþátt.
  • Tilkynna um nýjar tóbaksvörur og leyfishafa til smásölu tóbaks.
  • Innheimta tóbaksgjald.

Augljóst er að verði frumvarp dómsmálaráðherra að veruleika verður smásala áfengis ekki lengur byggð á lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð sem er grundvöllur einkaleyfis ÁTVR í dag.

Önnur verkefni ÁTVR eru m.a. að banna innflutning og sölu eða innkalla vörur af markaði sem uppfylla ekki skilyrði laga og halda skrá yfir þá sem hafa fengið leyfi til smásölu tóbaksvara. ÁTVR er heimilt að krefja framleiðendur, innflytjendur og aðra sem lög þessi taka til um upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja að mati stofnunarinnar til þess að sinna eftirliti. Einnig getur ÁTVR að eigin frumkvæði fjallað um einstök mál og tekið ákvörðun um þau eða samkvæmt erindi eða ábendingu.

Ég þakka starfsfólki ÁTVR samstarfið á árinu. Frábært starfsfólk, sem hefur af dugnaði og seiglu haldið áfram af fullum krafti við að veita viðskiptavinum ÁTVR framúrskarandi þjónustu ár eftir ár í krefjandi umhverfi.

Ívar J. Arndal

Frábært starfsfólk, sem hefur af dugnaði og seiglu haldið áfram af fullum krafti við að veita viðskiptavinum ÁTVR framúrskarandi þjónustu ár eftir ár í krefjandi umhverfi.

Heildarstefna
Inngangur
Heildarstefna

Hlutverk

Að framfylgja stefnu stjórnvalda um bætta lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð í áfengis- og tóbaksmálum í sátt við samfélagið.

Stefna

Að vera í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins og fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar.

Við veitum framúrskarandi og fjölbreytta þjónustu með jákvæðu viðmóti, virðingu og faglegri ráðgjöf. Það er okkur hjartans mál að mæta þörfum og væntingum viðskiptavina með fagmennsku og fræðandi upplýsingum.

Upplifun – Vöruúrval – Traust

Frábært starfsfólk er grunnur að góðum árangri. Við viljum eftirsóknarverðan vinnustað þar sem samskipti einkennast af lipurð, þekkingu og ábyrgð. Áhersla er lögð á að starfsfólk geti vaxið í starfi og aflað sér þekkingar sem stuðlar að starfsánægju og framúrskarandi þjónustu.

Starfsumhverfi – Þekking – Liðsheild

Fagmennska, hagkvæmni og ábyrg vinnubrögð einkenna starfsemina. Lögð er áhersla á mælanleg markmið til að tryggja árangur á öllum sviðum. Við fylgjumst með og tileinkum okkur nýjungar til framfara.

Ábyrgð – Fagmennska – Nýsköpun

Við leggjum áherslu á góð tengsl og samvinnu við birgja og þjónustuaðila. Við gætum jafnræðis í samskiptum og við val og dreifingu á vörum. Öflug rafræn samskipti og birgjavefur bæta þjónustu og upplýsingaflæði.

Jafnræði – Samtal – Upplýsingar

Við erum fyrirmynd í samfélagsábyrgð og þjónustu. Við stuðlum að sátt og jákvæðu orðspori um hlutverk okkar. Við berum virðingu fyrir umhverfinu og leitum leiða til að lágmarka vistspor okkar.

Sjálfbærni – Samfélagið – Ímynd

ÁTVR vinnur eftir 15 ÁHERSLUM sem styðja við fimm meginþætti starfseminnar.

Stefnan gildir frá 1. janúar 2020

Heildarstefnan tók gildi 1. janúar 2020, hún byggir á fimm meginþáttum starfseminnar: þjónustu, starfsfólki, starfsháttum, birgjum og samfélagi. Fyrir meginþættina hafa 15 áherslur verið skilgreindar og út frá þeim eru aðgerðaáætlanir og mælikvarðar unnir. Á árinu var unnið að stefnumótun og var ný heildarstefna kynnt í mars 2024.

ÁTVR hefur sett sér stuðningsstefnur í samræmi við heildarstefnu.

Framkvæmdaráð
Inngangur
Framkvæmdaráð
Ívar J. Arndal
Forstjóri
Sigrún Ósk Sigurðardóttir
Aðstoðarforstjóri
Sveinn Víkingur Árnason
Framkvæmdastjóri
Kristján M. Ólafsson
Framkvæmdastjóri
Skipulag og stjórnun
Inngangur
Skipulag og stjórnun

ÁTVR starfar eftir lögum nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak. Lögin gilda um smásölu á áfengi og heildsölu á tóbaki. Markmið laganna er þríþætt: Að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð. Að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu. Að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.

Fjármála- og efnahagsráðherra skipar forstjóra sem fer með stjórn stofnunarinnar og ber ábyrgð á daglegum rekstri og ræður aðra starfsmenn.

Skipuritið gildir frá 1. ágúst 2020

Skipuritið sýnir starfsemi fyrirtækisins á myndrænan hátt. Meginsviðin eru tvö: vörudreifing og heildsala tóbaks, og sölu- og þjónustusvið. Stoðsviðin eru fjögur: fjárhagssvið, mannauðs- og starfsþróunarsvið, rekstrarsvið og vörusvið. Stoðsviðunum er ætlað að styðja meginsviðin tvö. Aðstoðarforstjóri ber ábyrgð á samfélagslegri ábyrgð sem er hluti af fjárhagssviði.

Forstjóri og framkvæmdastjórar funda að jafnaði vikulega þar sem fjallað er um stefnumarkandi og rekstrartengd mál. Reglulegir starfsmannafundir starfsstöðva og fundir með stjórnendum Vínbúða eru hluti af skipulagi til að tryggja gott upplýsingaflæði. Workplace gegnir mikilvægu hlutverki í miðlun upplýsinga, bæði þeim sem snúa beint að vinnu og verkefnum, en einnig að fjölmörgum öðrum þáttum svo sem fræðslu og félagslífi.

Árs- og samfélagsskýrsla
Inngangur
Árs- og samfélagsskýrsla

Starfsemi ÁTVR er eingöngu á Íslandi. Árs- og samfélagsskýrslan nær yfir alla starfsemina og gildir fyrir árið 2023. Ísland er skilgreint sem nærsamfélag, allir stjórnendur eru íslenskir og búsettir á landinu. Skýrslan er gefin út á rafrænu formi og birt á www.vinbudin.is. Hægt er að prenta skýrsluna út í heild eða velja einstaka hluta hennar til útprentunar.

Til að leggja áherslu á réttmæta og gagnsæja upplýsingagjöf hefur samfélagsskýrslan verið rýnd og staðfest af alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte, samkvæmt alþjóðlega staðlinum ISEA 3000 (revised) með takmarkaðri vissu (e. limited assurance). Í GRI-skýrslu má sjá skjöl frá Deloitte þessu til staðfestingar.

Við gerð skýrslunnar er fylgt Global Reporting Initiative (GRI) Standards. Tilgangurinn er að skrá og miðla með gagnsæjum hætti upplýsingum sem tengdar eru samfélagslegri ábyrgð. Í skýrslunni er gerð grein fyrir 36 mælikvörðum. Gerð er grein fyrir mælikvörðum í texta skýrslunnar þar sem það á við. Hægt er að nálgast heildaryfirlit og mælikvarða í sjálfbærnihluta skýrslunnar.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun tóku gildi 2016. Heimsmarkmiðin eru 17 talsins og þeim fylgja 169 undirmarkmið. Þau eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkyns, jarðar og hagsældar. ÁTVR hefur unnið með sex áherslumarkmið: heilsu og vellíðan, jafnrétti kynjanna, góða atvinnu og hagvöxt, ábyrga neyslu og framleiðslu, aðgerðir í loftlagsmálum og líf á landi. Í sérstöku yfirliti í skýrslunni er gerð grein fyrir einstökum áherslum.

Amfori eru samtök sem hafa það að markmiði að tryggja að öll viðskipti skapi félagslegan, umhverfislegan og fjárhagslegan ávinning. Áfengiseinkasölur á Norðurlöndunum, þar með talið ÁTVR, eru aðilar að amfori. Siðareglur amfori eru lagðar til grundvallar í norræna samstarfinu (NAM – Nordic alcahol monopoly). Með aðild vilja einkasölurnar stuðla að aukinni sjálfbærni í aðfangakeðjunni og tryggja, eins og kostur er, að allar vörur sem boðnar eru til sölu séu framleiddar í samræmi við siðareglur. Markmið allra námskeiða og úttekta sem framkvæmdar eru, er að tryggja að siðareglum sé framfylgt í aðfangakeðjunni um leið og leitað er leiða til að gera betur.

Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni hefur það hlutverk að efla samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og hvetja þau til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti og stuðla að aukinni sjálfbærni. ÁTVR er meðlimur í Festu og tekur virkan þátt í starfsemi félagsins.

Staðfesting óháðs endurskoðanda

Ráðgjafafyrirtækið Deloitte veitir álit á ófjárhagslegri upplýsingagjöf í árs- og sjálfbærniskýrslu. Verkefnið felur í sér að kanna með gagnaskoðun, viðtölum og úrtaksprófunum hvort upplýsingar sem settar eru fram (með vísun í GRI mælikvarða) séu réttar, með takmarkaðri vissu, og gefa út um það áritun í samræmi við staðal ISAE 3000. Skoða staðfestingu frá Deloitte.

Hagsmunaaðilar
Inngangur
Hagsmunaaðilar
Stefna ÁTVR er að vera í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins og fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar.

Meginþættir heildarstefnunnar endurspegla helstu hagsmunaaðila. Þeir eru viðskiptavinir, mannauður, samfélagið, birgjar og eigandinn. Gerð er grein fyrir áherslum gagnvart einstökum hagsmunaaðilum, en allar miða þær að því að fylgja þeim áherslum sem eru i heildarstefnunni.

Mikilvægisgreining
Inngangur
Mikilvægisgreining

Haustið 2023 hófst vinna við áhættumat og mikilvægisgreiningu vegna sjálfbærni til að meta nýjar kröfur sem væntanlega koma til framkvæmda árið 2025. Í framhaldinu var unnin mikilvægisgreining m.t.t. hagsmunaaðila og samfélagsþátta. Síðar verður lagt mat á fjárhagslega og ófjárhagslega þætti.

Gerðar voru kannanir meðal hagsmunaaðila og tekin viðtöl, til að meta áhrif utanaðkomandi þátta á starfsemina, sem og áhrif reksturs á umhverfi og samfélag. Þannig voru dregin fram mikilvægustu sjálfbærniviðfangsefnin sem hafa áhrif á fyrirtækið og þeim raðað inn í tvívíða mynd.

Sjálfbærnistjórnun
Inngangur
Sjálfbærnistjórnun
Markmið og mælikvarðar

Heildarstefnan er grunnur að árlegri aðgerðaáætlun. Mælanleg markmið eru sett fyrir flesta þætti í rekstri og niðurstöður kynntar mánaðarlega, meðal annars í skorkortum Vínbúðanna. Öll skorkort eru aðgengileg stjórnendum auk fjölmargra annarra gagnlegra upplýsinga sem snúa að rekstrinum. Stöðugt er unnið að því að þróa upplýsingar og gögn ætluð stjórnendum til að auðvelda ákvarðanir, auka samvinnu og yfirsýn.

Sjálfbærnistjórnun

Í töflunni má sjá helstu markmið og mælikvarða flokkuð eftir hagsmunaaðilum með tilvísun í GRI mælikvarða og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Einnig er í töflunni tilvísun í siðareglur alþjóðasamtakanna amfori.